24 mars 2017
Ingveldur Lára Þórðardóttir aðstandandi var viðstödd eina af okkar heimsóknum:
"Stefán Helgi Stefánsson og Margrét Sesselja Magnúsdóttir hafa sl. átta ár heimsótt aldrað minnissjúkt fólk og haldið fyrir það söngskemmtanir, þar sem Stefán syngur gömul og góð íslensk lög.
Í dag varð ég vitni að þessu á Hömrum, þar sem mamma býr. Þetta er einhver yndislegasta stund sem ég hef upplifað. Þarna horfði ég og hlustaði á fólk raula með, fólk sem öllu jöfnu tjáir sig varla, gleðin skein úr andlitum og fólkið klappaði og hló. Íbúar á Klörustofu hafa ekki mikið fyrir stafni og það er erfitt að horfa á eftir þeim hverfa sífellt lengra inn í sjálfa sig, þangað sem enginn getur fylgt. Tónlist er eitt af því fáa sem kveikir neistann og dregur fólk obbolítið á útopnuna.
Endalaust þakklát verð ég ykkur, Sessa mín, fyrir þetta óeigingjarna en afskaplega mikilvæga starf ykkar í Elligleði. Kysstu tenórinn frá okkur mömmu. Hún átti verulega erfiðan dag og þetta gladdi hana mjög."
--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
5.júlí 2013
Ljóð sem aðstandandi samdi og gaf okkur eftir að hafa verið hjá föður sínum á meðan á okkar heimsókn stóð.
"Tónarnir
streyma
orðin
sungin
eitt
andartak
við
stödd
á sama
stað
á sama
tíma
söngurinn
flæðir
við
hönd
í hönd
saman
glampi
í auga
bros
ró
söngurinn
sameinar
okkur
eitt
andartak
kökkur
í hálsi
tár
á hvarmi
syrgi
það sem
var
þakka
sönginn
sem
andartak
færir
okkur
á sama
stað
á sama
tíma"
Þórunn Elídóttir
---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
15. febrúar 2010
"Ég ætla að segja frá merkilegu verkefni sem unnið er af hugsjónamanneskjum þeim Sesselju Magnúsdóttur og Stefáni H. Stefánssyni.
Ég frétti af komu þeirra á hjúkrunarheimilið Holtsbúð í Garðabæ þar sem móðir mín (94 ára) dvelur og gerði mér ferð þangað til að fylgjast með. Móðir mín hefur dvalið þar í 10 ár og er löngu hætt að þekkja okkur börnin sín, situr bara í hjólastól og drýpur höfði og er dauf til augnanna (litla skynjun að sjá)
Búið var að koma heimilisfólkinu í salinn og Sesselja og Stefán ganga í salinn eins og þau séu að halda stórtónleika, framkoma þeirra og virðing við heimilisfólkið er slík að unun var að fylgjast með. Gleði og eftirvænting var greinileg hjá öllum viðstöddum.
Í þetta skiptið upplifði ég, að það var gleði í augum móður minnar og hún raulaði með og kunni textana. Hún ruggaði sér í takt við músíkina. Þetta var ógleymanleg stund. Þetta segir okkur að hægt er að ná inn fyrir skelina hjá þessum sjúklingum, en fáir hafa tök á því.
Ég lít á þessar hugsjónamanneskjur sem hvunndagshetjur sem vinna frábært starf í þágu þeirra sem minna mega sín.
Upplifun mín var svo mikil að ég tilnefndi þau til samfélagsverðlauna í Fréttablaðinu og finnst þau verðskuldi það.
Ég óska þess að þau hafi tök á að stunda sitt framlag áfram og mættu fleiri vita af því.
Kærar kveðjur,
Sigrún Jóhannsdóttir"
-----------------------------------------------------------------------------------------------
14. janúar 2011
"Kæru vinir Sesselja og Stefán Helgi!
Okkur langar til að þakka ykkur það frábæra framtak ykkar, að heimsækja okkur hér í Hlíðabæ, dagþjálfun fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma.
Söngur Stefáns og einstaklega hlý framkoma ykkar beggja er okkur mikils virði. Sú virðing sem skjólstæðingum okkar er sýnd, með því að færa tónleika í þessum gæðaflokki heim í stofu til okkar, er svo sannarlega þakkarverð.
Í tvö ár höfum við nú notið vináttu ykkar, heimsóknina og ekki síst einstaklega vel völdu íslensku sönglaga Stefáns Helga og vonum við að svo megi verða lengi enn, því það er einstakt hve þessi nánd milli söngvarans og fólksins er áhrifarík.
Hjartans þakkir til ykkar beggja frá öllum í Hlíðabæ.
Sigrún Kristjana Óskarsdóttir, forstöðumaður."
-------------------------------------------------------------------------------------------------
15.júní 2009
"Maríuhús í Blesugróf er dagþjálfun fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Þar er með ýmsum hætti leitast við að létta fólki lífið meðal annars með söng og hljóðfæraslætti.
Okkur í Maríuhúsi er enn efst í huga þakklæti og ánægja vegna frábærrar skemmtunar og smitandi gleði sem fylgdi komu Stefáns Helga Stefánssonar tenórsöngvara til okkar núna í vor. Söngur hans, framkoma og viðmót var með þeim hætti að ógleymanlegt er. Stefán er sannkallaður og ósvikinn gleðigjafi sem leggur sálina í að skapa hamingju og ólýsanlega góð hughrif í kringum sig.
Heimilisfólk naut yndislegra laga í stórkostlegum flutningi Stefáns og hann kunni sannarlega að láta okkur öllum líða vel. Stefán er söngvari af guðs náð og frábær fagmaður sem við sem áheyrendur og áhorfendur kunnum að meta.
Við þökkum þér kærlega fyrir það framtak að gera okkur kleift að njóta lifandi flutnings sönglistarinnar í Maríuhúsi og fá tækifæri til að sjá og heyra einn af landsins bestu söngvurum á heimavelli okkar.
Fyrir hönd allra í Maríuhúsi,
Guðríður."
---------------------------------------------------------------------------------------------------
12. júní 2009
"Það var um miðjan maí síðastliðinn að Sesselja Magnúsdóttir hringdi til mín og tjáði mér að sig langaði til þess að heimilisfólkið mitt í Skjóli hjúkrunarheimili, einkum þeir sem eru að takast á við erfiða heilsbilunarsjúkdóma, fengju að njóta söngs Stefáns Helga Stefánssonar tenórsöngvara.
Okkur talaðist svo til að þau Stefán kæmu í Laugaskjól, sem er sambýli minnissjúkra (sambýli á vegum Skjóls), þann 23. maí og síðan hingað í Skjól hjúkrunarheimili 9. júní 2009.
Þessar heimsóknir voru hreint frábærar. Vitað er hve tónlist höfðar vel til þessa hóps heimilismanna, en að hafa söngvarann með sína frábæru rödd og hlýju framkomu í þessari nánd þ.e. syngjandi við hlið heimilismanna hefur ótrúleg áhrif. Geinilegt var að þessir tónleikar snertu marga strengi í hjörtum og hjá sumum mátti sjá tár á hvarmi en aðrir rauluðu með söngvaranum.
Það segir e.t.v. margt að þegar söngvarinn var að hneigja sig og þakka fyrir sig, var honum vinsamlega bent á, af heimilismanni, að það væri ekki hann sem ætti að þakka heldu þau honum!!
Í stuttu máli:
Dásamlegir tónleikar og frábært framtak hjá þeim Sesselju og Stefáni Helga.
Með virðingu og þökk og von um fleiri svona frábæra tónleika.
Aðalheiður Vilhjálmsdóttir
Hjúkrunarforstjóri í Skjóli."
---------------------------------------------------------------------------------------------------
Apríl 2009
"Í byrjun apríl s.l. kom Stefán Helgi tenórsöngvari í heimsókn til okkar í Fríðuhús og gladdi skjólstæðinga okkar með söng og glens. Í Fríðuhúsi er rekin dagþjálfun fyrir einstaklinga með minnissjúkdóma og byggist starfsemin á að örva og gleðja einstaklingana til að auka lífsgæði þeirra.
Þessi heimsókn Stefáns Helga heppnaðist í alla staði mjög vel og skein gleði og ánægja úr öllum andlitum á meðan á henni stóð. Svona nokkuð er okkur dýrmætt því að þegar einstaklingur er kominn með minnissjúkdóm þá skiptir svo miklu máli líðandi stund og þó að sumir einstaklingarnir muni ekki eftir því sem var gert þá er það gleðitilfinningin sem situr eftir og er það þeim mikils virði.
Með bestu kveðjum,
Sigríður Lóa Rúnarsdóttir,
forstöðumaður í Fríðuhúsi"
---------------------------------------------------------------------------------------------------
Febrúar 2010
"Ég má til með að hafa orð á því, að við hér í Dagþjálfun- og hjúkrunarsambýlinu í Roðasölum höfum verið þess aðnjótandi að fá til okkar í tæpt eitt ér söngvaranna Stefán Helga Stefánsson og aðstoðarkonuna hans Sesselju Magnúsdóttur. Þau hafa séð um að halda uppi fjörinu hjá okkur allavega einu sinni í mánuði og hafa skjólstæðingar okkar virkilega notið þess að fá þau í heimsókn.
Með drífandi krafti og björtum tónum hefur Stefán Helgi náð að heilla alla upp úr skónum og jafnvel fengið skjólstæðinga okkar með sér upp á svið til að taka aríur, og þá hefur nú heldur betur verið gaman hér. Allar þessar heimsóknir hafa verið okkur að kostnaðarlausu sem er í raun ótrúlegt framlag af þeirra hálfu.
Ég mátti til með að láta þetta berast þar sem það er leitandi að öðru eins framtaki.
Við í Roðasölum eigum ekki orð yfir það þakklæti sem þau eiga skilið og vonumst eftir áframhaldandi góðu samstarfi.
Kær kveðja,
Helga María Arnarsdóttir, deildarstjóri."
----------------------------------------------------------------------------------------------------
“Stefán Stefánsson hefur komið hingað í Skógarbæ með reglulegu millibili og sungið fyrir heimilisfólk og starfsfólk á heilabilunardeildum.
Þessar samkomur hafa verið auglýstar með góðum fyrirvara svo aðstandendum gefist einnig kostur á að njóta þeirra með sínu fólki.
Stefán syngur af mikilli list og innlifun hin ýmsu lög.
Við sem störfum á heilabilunardeildunum erum mjög þakklát komu hans.
Þó að einstaklingar séu mjög heilabilaðir sér maður að þeir taka undir í söngnum og eru einnig eindregið hvattir til þess af Stefáni.
Vonandi fáum við að njóta söngstunda Stefáns áfram hér í Skógarbæ.
Með vinsemd og virðingu.
Ása Guttormsen, hjúkrunarfræðingur og djákni.”
----------------------------------------------------------------------------------------------------
28. janúar 2010
“Foldabær er stoðbýli fyrir átta aldraða einstaklinga með minnissjúkdóma.
Á umliðnum mánuðum hafa íbúar, starfsmenn, ættingjar og vinir heimilismanna notið ómetanlegrar og ánægjulegrar heimsókna Stefáns Helga Stefánssonar tenórsöngvara. Sem með nærveru sinni hefur heillað okkur upp úr skónum með frábærum söng sínum, útgeislun og nærveru.
Þetta er ómetanlegt og lofsvert framtak af hálfu þeirra Stefáns og Sesselju að framkvæma og skipuleggja þessar heimsóknir fyrir aldraða. Þessar stundir gefa okkur öllum mikið og njóta heimilismenn þeirra fullkomlega og vonandi eigum við eftir að njóta nærveru þeirra og hlýða á söng Stefáns áfram um ókomna daga.
Með vinsemd og virðingu
Margrét Lilja Einarsdóttir, Deildarstjóri Foldabæjar.”
----------------------------------------------------------------------------------------------------
"Það er með mikilli ánægju sem ég skrifa umsögn um söngverkefni ykkar Stefáns Helga.
Stefán Helgi Stefánsson og Sesselja Magnúsdóttir hafa komið hingað á Droplaugarstaði mánaðarlega síðustu tvö árin og sungið á einingum fyrir minnissjúka. Það er alltaf mikil þáttaka og margir að hlusta. Þeir sem ekki búa á þessum einingum fara gjarnan þangað inn til að geta hlustað á tónlistina. Mikil ánægja er með þessar söngstundir þeirra og frábært hvað þau eru full eldmóðs að halda þessu áfram.
Nú er annað árið þeirra að klárast þar sem þau fara á milli heimila fyrir einstaklinga með minnissjúkdóma og halda konserta. Ég hef heyrt mjög vel af þessu látið alls staðar þar sem þau hafa komið en það eru ansi margir staðir . Þeir sem eru með minnissjúkdóma njóta tónlistar mjög vel og taka oft undir þegar verið er að syngja eitthvað sem þau kunna. Það er mikil gleði með þessar stundir þeirra og vonandi hafa þau vilja og getu til að halda áfram að koma til okkar um ókomin ár.
Með góðri kveðjur
Ingibjörg Bernhöft
Forstöðumaður Droplaugastaða"
-----------------------------------------------------------------------------------------------
"Til mín kom ung og glæsileg kona, Sesselja Magnúsdóttir og bauð upp á söngstund með Stefáni Stefánssyni fyrir heimilismenn á deild A-3/4
Á deildinni eru 30 heimilismenn, misjafnlega á sig komin. Sessa eins og við köllum hana kemur með honum 1x í mánuði. Þvílík ánægjustund að fá þau. Heimilisfólk heillað og gleðin mikil að hlusta á söng Stefáns og hafa Sessu hjá okkur.
Bestu þakkir fyrir hönd heimilismanna á deild A-3/4
Kveðja,
Soffía Snorradóttir, deildarstjóri A-3/4, Hrafnistu Reykjavík"
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is